Annað árið í röð stendur Yara á Íslandi fyrir gróffóðurkeppni.

Valin hafa verið 6 bú til þátttöku um allt land.  Markmið með þessari keppni er að vekja athygli á því hvernig er hægt að standa betur að gróffóðuröflun.  Mikill breytileiki er milli búa hvað varðar uppskeru og hafa þar ýmsir þættir áhrif á.  Þannig munaði 70% í uppskeru milli þess aðila sem hafði mesta uppskeru og þess sem hafði minnsta uppskeru í Gróffóðurkeppni Yara á Íslandi 2017.  Það er ekki síður mikilvægt að horfa til gæða uppskerunnar þegar kemur að orkugildi, próteini, kolvetna samsetningu og hlutföllum steinefna.  Þar fyrst kemur í ljós hvernig okkur hefur tekist til við að útbúa áburðaráætlun og ekki síður hvernig tekist hefur til við framkvæmd hennar.  Í þeim efnum skiptir miklu máli að hafa upplýsingar um efnainnihald gróffóðurs, taka reglulega jarðvegssýni og ekki síður að láta greina búfjáráburð til að tryggja rétta og hagkvæma notkun á tilbúnum áburði.

Það er ekki ofsögum sagt að veðurfar getur skipt sköpum varðandi árangur gróffóðurföflunnar.  Veðurfar eru ytri þættir sem við getum ekki stýrt en þó reynt að gera það besta úr aðstæðum hverju sinni.  Tíðarfarið þetta árið hefur haft mikil áhrif á gróffóðurgæðin.  Fyrir það fyrsta hafa bændur ekki forþurrkað eins og gjarnan er stefnt að.  Því ríkir nokkur óvissa um hvernig hefur tekist til með verkunina sérstaklega í ljósi þess að hráefnið er ekki alltaf eins og best verður á kosið.  Í annan stað hefur 1. sláttur dregist víða og því eru gróffóðurgæðin ekki eins góð og hugsast getur.  Staðan er þó afar ólík á milli svæða og dæmi um að bændur hafi í 1. slætti og náð miklum og góðum heyjum.  Það er aldrei eins mikilvægt og nú að huga að því að senda gróffóðursýni til greiningar.  Með því móti verður fóðrun markvissari.

Nú er komið að því að kynna búin sem taka þátt í gróffóðurkeppni Yara þetta árið.

Egilsstaðir á Fljótsdalshéraði

Ábúendur á Egilsstöðum: Gunnar Jónsson, Vigdís M. Sveinbjörnsdóttir, Sigbjörn Þór Birgisson og Herdís Magna Gunnarsdóttir.

Ábúendur á Egilsstöðum: Gunnar Jónsson, Vigdís M. Sveinbjörnsdóttir, Sigbjörn Þór Birgisson og Herdís Magna Gunnarsdóttir.

Á Egilsstöðum er rekið mjólkur- og nautakjötsframleiðsla ásamt nokkrum sauðkindum, hestum og öndum.

Gróffóðuröflun:

Gróffóður er ræktað á um 200 ha á búinu.  Á hverju ári er stefnt að því að ná sem bestu gróffóðri fyrir mjólkurkýr á sem hagkvæmastan hátt. Túnin eru slegin rétt fyrir skrið vallarfoxgrassins. Oftast  er slegið upp úr hádegi, heyið hirðum við oft samdægurs en við látum það allavega ekki liggja lengur en 1 sólarhring. Það er aðeins misjafnt hvort við snúum í en við reynum að hafa þurrefnisprósentu um 40%.

Áburðaráætlun:

Við vinnum áburðaráætlun sjálf og dreifum búfjáráburði vor og haust með niðurfellingu.

Við höfum ekki tekið jarðvegssýni en ættum að fara bæta úr því. Við höfum aðeins verið að prófa kalksaltpétur áburðinn frá Yara en höfum ekki kalkað spildur að öðru leiti.

Jarðrækt:

Tíðni endurræktunar er misjöfn eftir jarðvegi og árferði hverju sinni. Ekki eru látin líða meira en 6 ár milli endurræktunar á góðum túnum sem eru ætluð í kúafóður og oft er styttra á milli en það.

Grasfræblöndur með háu hlutfalli vallarfoxgras verða fyrir valinu, ýmist einar og sér eða skjólsáð með vetrarrýgresi.

Skálpastaðir, Lundarreykjadal

Bjarni Guðmundsson, bóndi á Skálpastöðum.  Auk hans búa á bænum þau Hildur Jósteinsdóttir, Eyjólfur Kristinn Örnólfsson og Margrét Helga Guðmundsdóttir.

Bjarni Guðmundsson, bóndi á Skálpastöðum. Auk hans búa á bænum þau Hildur Jósteinsdóttir, Eyjólfur Kristinn Örnólfsson og Margrét Helga Guðmundsdóttir.

Á Skálpstöðum er stunduð mjólkurframleiðsla. Einnig eru nokkur hross á búinu.

Gróffóðuröflun:

Ræktað land er um 80 ha.  Í flestum árum er stefnt að því að ná öllu fóðri í mjólkurkýr í fyrsta slætti.  Gróffóður er verkað í rúllur.  Þar er markmið að forþurrka fóðrið upp að 40-50% þurrefni.  Vallarfoxgras er slegið um skrið.

Áburðaráætlun:

Áburðaráætlun gerum við sjálf og tökum jarðvegssýni reglulega.  Búfjáráburður er borinn á að vori og haust.

Jarðrækt:

Á hverju ári eru endurræktaðir 6-8 ha.  Ýmist með því að sá fóðurkáli eða korni eða aftur grasi beint.  Ræktunarlandið er að mestu framræst hallamýri.  Kalkað er eftir þörfum en að jafnaði er sýrustig jarðvegs ásættanlegt.  Sáð er grasfræblöndu með háu hlutfalli af vallarfoxgrasi gjarnan með rýgresi.

 

Goðdalir í Skagafirði

Að Goðdölum er rekið sauðfjár- og hrossabú. Ábúendur eru Smári Borgarsson og Sigríður Sveinsdóttir.

Gróffóðuröflun:

Gróffóður er ræktað á um 80 ha.  Tún eru beitt mikið að vori og hausti.  Reynt er að ná sem bestum heyjum hverju sinni fyrir fengieldi og sauðburð.  Lakara fóðrið er nýtt til miðsvetrarfóðrunar og í hross.  Reynt er að forþurrka eins mikið og hægt er.

Áburðaráætlun:

Áburðaráætlun er yfirleitt unnin af heimafólki.  Eru nýlega búin að vera í verkefninu Sprotanum hjá RML þar sem farið var yfir áburðaráætlun og tekin jarðvegssýni.  Það er lítið um tún á mýrlendi hér og ekki þörf á því að kalka.

Jarðrækt:

Reynt er að endurrækta á hverju ári hluta af túninu 3-5 ha ári.  Oftast er sáð rýgresi í 2-3 ár og síðan lokað með grasfræblöndu sem hentar til beitar sem er þá rík af vallarsveifgrasi.  Rýgresið er slegið og rúllað og endurvöxtur nýttur til sauðfjárbeitar.

 

Stekkjaflatir í Eyjafirði

Ábúendur á Stekkjaflötum, Hulda Sigurðardóttir og Ágúst Ásgrímsson.

Ábúendur á Stekkjaflötum, Hulda Sigurðardóttir og Ágúst Ásgrímsson.

Að Stekkjarflötum er rekið kúabú.  Auk þess telur bústofn nokkrar kindur og hross.

Gróffóðuröflun

Gróffóður er ræktað á um 100 ha.  Markmið hvers árs er að ná góðum heyjum með lágmarks notkun á tilbúnum áburði.  Fóður er verkað í rúllur.  Reynt er að forþurrka upp undir 60-70%.

Áburðaráætlun

Mikið er lagt upp úr því að gera áburðaráætlun fyrir hverja spildu.  Reynt er að nýta búfjáráburð sem best og fá sem besta nýtingu á tilbúnum áburði.  Búfjáráburður er borinn  jafnt á allt ræktunarland. Mikið er lagt upp úr því að styrkur kalís í fóðri verði ekki of hár.

Jarðrækt

Á hverju ári eru ræktaðir um 6-9 ha af korni.  Korn er yfirleitt ræktað í 3 ár og vallarfoxgrasi skjólsáð með byggi á 4 ári.  Gjarnan er sáð hreinu vallarfoxgrasi.  Hluti af byggökrum eru slegnir í grænfóður um skrið og kúnum beitt á endurvöxtinn.

 

Egilsstaðakot í Flóa

Mynd 6 - Egilsstaðakot

Ábúendur á Egilsstaðakoti í Flóa, Catharina (Cathy) Marie Berta Krentel og Þorsteinn Logi Einarsson.

Búið er með mjólkurkýr, sauðfé, nautaeldi og hross.

Gróffóðuröflun:

Ræktað land er um 150 ha.  Á síðustu árum hefur verið aukið nokkuð við ræktarland. Allt gróffóður er verkað í rúllur.  Í mjólkurkýrnar eru miðað við að þurrefni fóðurs sé 30-35% þurrefni en í sauðféð er reynt að þurrka meira eða upp undir 60-70%.

Áburðaráætlun:

Áburðaráætlun er unnin af bóndanum sjálfum.  Stuðst er við niðurstöður heysýna við gerð áburðaráætlana og reynslu fyrri ára.  Jarðvegur er bæði mýri og mólendi.  Mýrarnar eru nokkuð súrar og þarf að kalka.

Jarðrækt:

Árlega eru endurræktaðir um 30 ha.  Jarðræktin er nokkuð fjölbreytt.  Grænfóður ræktað bæði til beitar og sláttar ásamt korni.  Látið er líða 3-4 ár þar til sáð er grasfræi.  Reynt er að vera með hreint vallarfoxgras í kýrnar og blöndu af vallarfox- og vallarsveifgrasi í þau tún sem er meira beitt af sauðfé.  Reynt er að sá grasfræi snemma vors, þannig að uppskera náist sáðárið.

 

Lækur í Flóa

Ábúendur á Læk, Ágúst Guðjónsson og Margrét Drífa Guðmundsdóttir.

Ábúendur á Læk, Ágúst Guðjónsson og Margrét Drífa Guðmundsdóttir.

Búskapurinn er fyrst og fremst mjólkurkýr, en einnig er á búinu nokkur hross.  Ágúst og Margrét hafa búið á Læk í 4 ár.

Gróffóðuröflun

Ræktað land er um 80 ha þar af eru um 10 ha beittir.  Gróffóður er allt verkað í rúllur.  Markmið er að forþurrka að 35-40% og nota íblöndunarefni.  Að jafnaði eru teknir tveir slættir af stærstum hluta túnanna.  Verktaki er notaður til að slá og binda í rúllur.

Áburðaráætlun

Áburðaráætlun er unnin heima á búinu.  Við gerð áburðaráætlunar er horft mikið til heyefnagreininganna.  Tún eru flest á mýrlendi og þörf á því að kalka.

Jarðrækt

Á hverju ári er verið að endurvinna um 10-15 ha.  Nýræktum er lokað á 2-3 ári. Sáð er rýgresi, höfrum eða blöndu af rýgresi og höfrum á fyrsta ári. Árið sem nýræktinni er lokað er grasfræði skjólsáð með höfrum. Ýmist er sáð fræblöndum eða hreinu vallarfoxgrasi.

Skráðu þig á póstlista Yara og við sendum þér hagnýtar upplýsingar