Umhverfi og endurvinnsla

Toppur fjall

 

 Áburður og umhverfið

Umhverfismálum í víðum skilningi hefur verið gefinn vaxandi gaumur á síðari árum og er landbúnaðurinn engin undantekning þar á. Áhrif áburðar á umhverfi, bæði búfjáráburðar og tilbúins áburðar, geta verið talsverð ef ekki er rétt staðið að áburðargjöfinni. Magn áborins áburðar og áburðartími hafa mest áhrif á mengunarhættu frá áburði en einnig hefur jarðvegsgerð, jarðvegsdýpt og fjarlægð frá vatnsfarvegum talsverð áhrif.

Helst er hætta á mengun grunnvatns og yfirborðsvatns en einnig má líta á óhæfilega mikla áburðargjöf sem jarðvegsmengun. Nítratmengun grunnvatns og ofauðgun yfirborðsvatns af köfnunarefni og fosfór eru helstu afleiðingar útskolunar áburðarefna frá landbúnaði. Ofauðgun getur leitt til súrefnisskorts í lækjum, ám og vötnum og þannig t.d. haft áhrif á lífskilyrði fiska. Hérlendis benda mælingar á næringarefnum úr áburði í ám og vötnum til þess að útskolun þeirra sé mjög lítil.

Víða erlendis hafa verið sett lög sem kveða á um hvernig skuli staðið að notkun næringarefna í landbúnaði. Hérlendis hefur verið sett reglugerð um varnir gegn mengun vatns af völdum köfnunarefnissambanda frá landbúnaði og öðrum atvinnurekstri (nr. 804/1999). Einnig hafa verið samdar starfsreglur um góða búskaparhætti sem eiga að vera leiðbeinandi fyrir bændur hvað varðar umgengni við umhverfið. Síðustu útgáfu þeirra, frá 26. ágúst 2002, má nálgast á vefsíðu Umhverfisstofnunar.

Talsverð umræða hefur verið um hættu á þungmálmamengun frá tilbúnum áburði, sérstaklega kadmíummengun. Kadmíum í áburði er að mestu leyti í samböndum við fosfór en magn þess ræðst af uppruna fosfórsins. Einnig er þekkt að náttúrulegt magn kadmíums og annarra þungmálma er hærra í jarðvegi á svæðum þar sem eldvirkni er mikil eins og hér á landi. Leyfilegt hámarksmagn kadmíums í áburði hérlendis er 50 mg/kg fosfórs. Blandaður áburður frá Yara er með afar lágt kadmíuminnihald.

Það er markmið Yara að framleiða áburð í sátt við umhverfið og stuðla að skynsamlegri notkun bænda á áburði með fræðslu um áburð og áburðarnotkun. Til marks um það er áherslan lögð á „Notaðu minni áburð með Yara„.

Skráðu þig á póstlista Yara og við sendum þér hagnýtar upplýsingar