Meðhöndlun og flutningur

Gæði snúast um meira en framleiðslu.  Gæði eru heildarupplifun notandans og hér getum við öll lagt okkar af mörkum.  Oft er það „þetta extra“ sem þú gerir aukalega sem ræður úrslitum.

Meðhöndlist með varúð

Skemmdir á umbúðum hafa í för með sér ónýtan áburð, rýrnun, aukavinnu og kvartanir frá viðskiptavinum. Þetta leiðir til aukins kostnaðar sem í mörgum tilfellum má komast hjá ef áburðurinn er meðhöndlaður af varúð og á réttan hátt.  Stórsekki má ekki setja harkalega niður eða ýta til.  Sekkir sem lagðir eru á hliðina missa lögun sína. Þeir verða erfiðari að meðhöndla, hættulegir að stafla og innri sekkurinn getur auðveldlega eyðilagst.  Flýtið ykkur ekki um of á kostnað góðra vinnubragða.

Undirlagið skiptir máli

Verið á verði gagnvart óhreinu undirlagi – forðist hvassar brúnir.  Sópið möl og ryð af plönum áður en þið setjið áburðarsekki á þau.  Lítið gat getur valdið miklum skaða.

Notið réttan lyftibúnað

Stórsekkjum á að lyfta með réttum verkfærum, án skarpra brúna sem geta skemmt hankana.  Óvarinn gaffallyftari er ekki hentugur.  Lyftiarmurinn/-krókurinn þarf að vera sívalur og krækjast undir vafninginn á hankanum.  Sé sekknum lyft utan vafningsins getur hann rifnað.  Lyftiátakið á að vera jafnt og án snöggra rykkja.

Krókar fyrir áburðarpoka

 

Góður geymslustaður

Áburð verður að geyma á þurrum stað, helst inni þar sem hann er vel varin fyrir öllum veðrum (sól, rigningu o.s.frv.).  Sé hann geymdur úti er mikilvægt að setja hann á bretti á traustu undirlagi þar sem ekki er hætta á ágangi vatns.  Geymslustaðurinn þarf að vera skjólgóður og skuggsæll.  Brettaáburð ætti alltaf að geyma inni.  Ef pappírspokar blotna verða þeir að fá að þorna áður en þeir eru hreyfðir.
Ekki hlaða áburðarsekkjunum of hátt í margar raðir, þar sem það getur skapað óöruggar vinnuaðstæður.  Háir staflar geta verið óstöðugir og líklegri til að hrynja.  Sé áburðurinn geymdur utandyra er mikilvægt að hafa hann á dimmum stað og setja dúk yfir.  Sumar áburðartegundir geta verið viðkvæmar fyrir sól og hitabreytingum, en þær aðstæður geta haft skaðleg áhrif á virkni áburðarins.

Geymsla áburðar

Móttökueftirlit er mikilvægt – alltaf

Athugið alltaf vöru sem kemur í ykkar hendur.  Flutningsaðilinn er alltaf ábyrgur fyrir að rétt magn af áburði komist óskemmt til skila.  Setjið skemmda vöru til hliðar og gerið strax ráðstafanir til úrbóta.

Frágangur áburðarstæðu

Vandið hleðslu áburðarstæðna og bindið sekkina saman eftir þörfum.  Þegar áburður er geymdur úti er best að hlaða honum á bretti, breiða vel yfir og binda vandlega niður.  Yfirbreiðslur geta nuddast við sekkina þannig að þeir rifni við frekari meðhöndlun.  Þess vegna er mikilvægt að strekkja (og endurstrekkja) festingar vel til þess að koma í veg fyrir þetta.  Sé ekki breitt yfir áburðinn er lágmark að tryggja að hankar pokanna geti ekki slegist í vindi.  Gætið þess að börn og aðrir óviðkomandi komist ekki að áburðinum.

Skráðu þig á póstlista Yara og við sendum þér hagnýtar upplýsingar