Góð búfræði er ekki ný af nálinni en er alveg jafn mikilvæg í dag eins og áður fyrr. Rétt sýrustig er einn af þeim þáttum sem stuðla að góðum vaxtarskilyrðum fyrir nytjaplöntur.

Smá efnafræði

Jarðvegur með lágt sýrustig kallast súr jarðvegur. Vökvinn í jarðveginum inniheldur stærri hluta af H+ jónum en OH jónum sem gerir jarðveginn basískan. Hlutlaust sýrustig er við pH gildið 7, þá eru jafn margar H+ jónir eins og OH jónir. Kalk hlutleysir H+ jónirnar og sýrustigið hækkar.

Kalkþörfin er mæld í CaO ígildum og mismunandi kalkgjafar innihalda mismunandi magn af CaO. Kalkgildi er uppgefið sem sýrustigs áhrifin af CaO (stundum MgO) á 100 kg af vöru.

Það eru til margar tegundir af kalki með mismunandi kalkgildi. Flestar innihalda magnesíum (Mg) að hluta til, þannig að ef jarðvegssýni leiða í ljós skort á Mg getur verið hagstæður kostur, til að ná gildunum upp að nota efni til kölkunar, sem inniheldur einnig Mg.

Framboð næringarefna

Örverur í jarðvegi þrífast best þar sem ekki er mjög súrt. Þá vinna þær best að niðurbroti og umbreytingu á lífrænum efnum og áburði. Þannig verða næringarefnin sem plöntur þarfnast auðveldari í upptöku.

Sé sýrustigið of lágt hægist á þessum ferlum og erfiðara er fyrir plönturnar að taka upp næringarefnin. Þetta leiðir til lélegri vaxtar og skortseinkenni geta gert vart við sig. Það má því segja að áburðargjöf sé að hluta til kastað á glæ með tilheyrandi fjárhagslegu tjóni.

Einn af grundvallarþáttum í góðri jarðvegsgerð er að viðhalda passlegu sýrustigi. Plöntur sem vaxa í góðri jarðvegsgerð þroska stærri rótarmassa og verða kröftugri, sjá mynd. Þær eiga einnig auðveldara með að keppa við illgresi og lifa af veturinn.

Til vinstri er rótarmassi plöntu í jarðvegi með pH gildi 6,7, þurrefni róta vegur 230 gr. Til hægri er rótarmassi plöntu í jarðvegi með pH 5,2 og þurrefni róta 130 gr. Heimild: Franzefoss Minerals

Taflan hér að neðan sýnir hvernig flest næringarefni sem plöntur þarfnast, eru aðgengilegust þegar sýrustig er á bilinu 6,0-6,5. Þ.e.a.s. þar sem flipinn er breiðastur.

Framboð næringarefna fyrir plöntur í jarðvegi m.v. mismunandi sýrustig (pH gildi). Heimild: Franzefoss Minerals

Það er gjarnan talað um að köfnunarefni, fosfór og kalíum séu megin næringarefni plantna en hin efnin í töflunni að ofan eru líka mikilvæg fyrir vöxt þeirra og þroska. Rétt sýrustig stuðlar að betri samsetningu á steinefnum plantna og bættri heilsu þeirra.

Þegar sýrustigið lækkar verulega eykst hætta á eitrun af völdum mangans og áls, þar sem það auðveldar plöntunum að taka upp þau efni. Of mikið ál eyðileggur t.d. rætur plantnanna.

Mismunandi jarðvegsgerðir

Mismunandi jarðvegsgerðir bregðast á ólíkan hátt við kölkun. Segja má að jarðvegur sem er ríkur af mold eða leir hafi meiri jónarýmd en t.d. sendinn jarðvegur. Það þýðir að það þarf meira til að þær jarðvegsgerðir súrni en það þarf þá líka meira kalk til að ná að hækka sýrustigið í þeim.

Sendinn og steinefnaríkur jarðvegur súrnar sem sé hraðar en þarfnast jafnframt minna kalks til að hækka sýrustigið á ný.

Gróflega má segja að sendinn jarðvegur sem er með litlu moldarinnihaldi þurfi 100 kg CaO til að hækka pH gildið um 0,1 á meðan sendinn jarðvegur sem er með meira moldarinnihaldi þarf 500-600 kg CaO á ha til að hækka pH gildið um 0,1.

Í jarðvegi með mikilli mold geta plönturnar dafnað við 0,5 stigum lægra pH gildi en það sem hentar sendnum jarðvegi.

Náttúruleg súrnun í jarðvegi

Mikið af landbúnaðarlandi í Noregi er súrt frá náttúrunnar hendi. Það kemur í ljós við ræktun á nýju landi. Það þarf kalk til að ná sýrustiginu upp á ásættanlegt stig. Það eru margir þættir sem stuðla að súrnun jarðvegs, bæði náttúrulegir og ræktunarlegir:

  • Niðurbrot lífrænna efna
  • Útskolun eftir úrkomu
  • Súrt regn
  • Vöxtur á plöntum, þegar plöntur taka upp jákvæðar jónir t.d. Ca2+ og Mg2+, fara H+ jónir út í vökvann í jarðveginum.
  • Áburðargjöf með köfnunarefnisáburði leiðir til súrnunar þar sem ammóníum N þarf að umbreytast í nítrat N. Við það losnar einnig H+ jónir.

Jarðvegssýni

Jarðvegssýni leiða í ljós hvort það sé þörf fyrir kölkun og á hvaða hátt. Við endurræktun er hægt að kalka með upp undir 10.000 kg grófdólómíti per ha, að teknu tilliti til þess hversu súr jarðvegurinn er. Blanda skal kalkinu í plógfarið, eins djúpt og hægt er. Ef kalka þarf í stórum skömmtum er hægt að plægja helminginn af kalkinu niður og dreifa restinni fyrir sáningu. Þá ætti sýrustigið í efsta lagi jarðvegs að hækka eins hratt og mögulegt er. Kölkun fyrir sáningu bætir vaxtarskilyrðin fyrir fræið.

Til að viðhalda sýrustigi túna er æskilegt að kalka, þetta á sérstaklega við um eldri tún. 3.000-4.000 kg grófdólómít per ha ætti að vera passlegt magn (stærstur hluti borinn á að hausti), gjarnan tvö ár í röð ef sýrustigið er orðið verulega lágt.

Það eru til margar tegundir af kalki með mismunandi kalkgildum. Hvaða tegund er best að nota getur farið eftir framboði, virkni, búnaði til dreifingar og verði.

Áburðarráðgjafar geta sagt til um hversu mikið kalk hver spilda þarf og þá gjarnan í tengslum við gerð áburðaráætlunar.

Kölkun er góð fyrir fjárhaginn

Auk þess að viðhalda góðum skilyrðum fyrir plönturnar er passlegt magn kalks gott fyrir veskið. Öflug planta í góðum jarðvegi getur nýtt stærri hluta áburðargjafar, gefið meiri uppskeru, er með betri vörn gegn sjúkdómum og á auðveldara með að lifa veturinn af. Ef einhverjum þykir dýrt að kaupa kalk eitt árið þá verður samt að hafa í huga að það er ennþá dýrara að kaupa fóður þau ár sem uppskeran er of lítil.

Ef ætlunin er að dreifa kalki með kastdreifara þarf að velja kornað dólómítkalk annars er hætta á ójafnri dreifingu. Ef bændur eiga ekki til hentugan áburðardreifara fyrir kölkun má e.t.v. leigja slíkan búnað. Að auki eru verktakar sem taka að sér áburðargjöf og kölkun. Það getur verið skynsamlegt að nota þá til að minnka álagið við vorverkin.

Gott er að ráðfæra sig við ráðgjafa ef einhverjar spurningar koma upp!

 

Norsk Landbruksrådgivning NRL er samsvarandi Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins hér á Íslandi. Þessi grein birtist 27.04.2021 á heimasíðu þeirra www.nrl.no og er textinn eftir Ellen Reiersen. Við höfum þýtt greinina og birtist hún hér. Hér er hlekkur á upprunalegu greinina: https://kornforum.nlr.no/fagartikler/grovfor/nordNorge/kalking-lonner-seg

Þýðandi Halla Eiríksdóttir, Sláturfélagi Suðurlands.

Skráðu þig á póstlista Yara og við sendum þér hagnýtar upplýsingar