Rétt sýrustig jarðvegs leggur grunninn að aukinni uppskeru og endingu túna. Mikilvægar nytjajurtir eins og vallarfoxgras, rýgresi, vallarsveifgras, hávingull og smári þrífast betur í jarðvegi með hátt sýrustig. Eldri tún með lágt sýrustig einkennast af tegundum eins og hávingul, hálíngresi, axhnoðapunt og snarrót. Í súrum jarðvegi gefur sáðgresið eftir og óæskileg fóðurgrös og plöntur verða ríkjandi. Margar plöntutegundir sem ekki eru æskilegar í túnum þrífast vel við lágt sýrustig í jarðvegi og fá því forskot í samkeppni við þær plöntutegundir sem eru æskilegar í túnum.

Sýrustig jarðvegs og upptaka næringarefna

Æskilegt sýrustig jarðvegs hefur jákvæð áhrif á aðgengi plantna að næringarefnum. Þannig fæst betri nýting á tilbúnum áburði. Einnig stuðlar æskilegt sýrustig jarðvegs að auknum rótarvexti plantna, sem eykur aðgengi að næringarefnum og vatni. Kölkun eykur einnig vetrarþol sáðgresis.

Tafla 1. Mismunandi kröfur tegunda á pH jarðvegs og næringu (Heimild: Ragnhild Renna, NLR Nord-Norge).

Tegund

pH-krafa

Næringarþörf

Vallarfoxgras

6,0 – 6,3

Meðal

Hávingull

5,6 – 5,9

Meðal

Vallarsveifgras

6,0 – 6,3

Mikil

Sandfax

6,0 – 6,3

Mikil

Strandreyr

5,5 – 7,0

Lítil

Túnvingull

5,5 – 7,0

Meðal

Axhnoðapuntur

6,0 – 6,3

Mikil

Fjölært rýgresi

5,6 – 6,3

Mikil

Rauðsmári

6,2 – 6,5

Meðal

Hvítsmári

6,2 – 6,5

Meðal

Sýrustig jarðvegs og belgjurtir

Smári hefur ýmis jákvæð áhrif á gæði gróffóðurs. Hann stuðlar að auknum styrk próteins, vítamína og steinefna í gróffóðri. Meðal annars inniheldur smári þrisvar til fjórum sinnum meiri kalsíum en vallarfoxgras, og tvisvar til þrisvar sinnum meira af magnesíum. Rannsóknir hafa einnig sýnt að fóðurupptaka og mjólkurframleiðslan eykst með auknu hlutfalli af smára í gróffóðri.

Til þess að belgjurtir þrífist, er mikilvægt að sýrustig jarðvegs sé hærra en pH 6,0. Ein af ástæðum þess að belgjurtir þrífast betur við hátt sýrustig er að jarðvegsbakteríurnar sem lifa á rótum þeirra auka virkni niturbindingar.

Kölkun bætir byggingu jarðvegs og eykur loftun. Það er ein af forsendum fyrir starfsemi hinna ýmsu jarðvegslífvera sem eykur á umsetningu næringarefna og bætir þar með frjósemi jarðvegs.

Grein eftir Ragnhild Borchsenius, fagstjóri fyrir gróffóður hjá norsku landbúnaðar ráðgjafaþjónustunni (NLR), birti í Budskap 2-2020. Þýtt af Margréti Ingjaldsdóttur, söluráðgjafa hjá SS

Skráðu þig á póstlista Yara og við sendum þér hagnýtar upplýsingar