Búvörudeild SS tekur fjölmörg heysýni ár hvert. Nú í haust voru tekin yfir 100 sýni víðsvegar af landinu en þó mest á Suður- og Vesturlandi. Við upphaf sprettutíðar var kalt og þurrt sem seinkaði fyrri slætti um viku til tíu daga á Suður- og Vesturlandi. Á Norður- og Austurlandi fengu menn gott vor eftir erfiðan vetur. Snjó tók seint upp og lentu margir bændur í gríðarlega miklum kalskemmdum.

Tafla 1. Fyrri sláttur. Helstu meðaltals niðurstöður heysýna frá 2017-2020.
Rauðu tölurnar eru undir viðmiðunarmörkum.

Ef skoðuð eru meðaltöl fyrir fyrri slátt þá er orkan 0,87 FEm sem er heldur lægri en í fyrra. Próteinið er hins vegar hærra í heyjunum þetta árið eða 145 g/kg. Mikilvægt er að skoða kjarnfóðurgjöf með hliðsjón af niðurstöðum heysýna.

Prótein

  • Prótein í fóðri ræðst af plöntutegund, sláttutíma og áburðargjöf.
  • Ef próteinið fer undir eða yfir viðmiðunarmörk ætti að skoða sláttutíma og köfnunarefnisáburðargjöf.
  • Styrkur próteins fellur með þroska túngrasa.
  • Ekki er gott að prótein sé mikið hærra en viðmiðunarmörk segja til um því þá fer aukin orka í niðurbrot á próteini.
  • 39 % sýna er undir viðmiðunarmörkum fyrir prótein. Hinsvegar má geta þess að tréni er á pari við viðmiðunarmörk. Mikilvægt er því að skoða áburðargjöfina.

Mynd 1: Y-ásinn er prótein, g/kg og X-ásinn er Þe%.
Viðmið fyrir prótein er 140-180 g/kg, svörtu brotalínurnar sýna neðri og efri mörk.
Bláu punktarnir eru heysýnin úr fyrri slætti. Hinir punktarnir eru keppendur í Gróffóðurkeppni Yara.

Sykur

  • 80 % sýna er innan viðmiðunarmarka fyrir sykur í gróffóðri, sem er gríðarlega gott.
  • Mikilvægt er að slá eftir sólríkan dag þegar plönturnar eru ríkar af sykrum.

Mynd 2: Y-ásinn er sykur, g/kg og X-ásinn er Þe%.
Viðmið fyrir sykur 40-80 g/kg, svörtu brotalínurnar sýna neðri og efri mörk.
Bláu punktarnir eru öll heysýnin úr fyrri slætti. Hinir punktarnir eru keppendur í Gróffóðurkeppni Yara.

Hlutverk sykurs

  • Magn sykurs í fóðri ræðst af plöntutegund, sláttutíma, tapi sem verður við forþurrkun og við gerjun fóðurs.
  • Hátt innihald sykurs eykur lystugleika fóðurs og þar með gróffóðurát. Það hefur síðan jákvæð áhrif á vambarstarfsemina og hlutfall trénis og auðleystra kolvetna verður æskilegra.
  • Niðurbrot á sykri í vömb leiðir til hærri fituprósentu í mjólk.

Steinefni

Steinefnainnihald er heldur betra þetta árið en í fyrra. Ef meðaltöl heysýna eru skoðaðar fyrir uppskeru úr fyrri slætti þá er bara kalsíum (Ca) undir viðmiðunarmörkum. Gríðarleg hækkun er á fosfór (P) milli ára en í fyrra var fosfórinn 2,4 g/kg en er nú 3,1 g/kg. Allt bendir til þess aukin kölkun hafi skilað sér í betri steinefnainnihaldi gróffóðurs.

Fosfór (P)

  • Ef fosfór er undir viðmiðunarmörkum þá er mikilvægt að skoða hlutina í samhengi, hversu mikill fosfór hefur verið borinn á og hver er kalsíumstaðan.
  • Mikilvægt er að sýrustigið sé rétt því fosfór bindst auðveldlega jarðvegi.
  • 49% sýna eru undir viðmiðunarmörkum fyrir fosfór. Mikilvægt er því að taka jarðvegssýni og skoða áburðargjöfina.

Mynd 3: Y-ásinn er fosfór (P), g/kg og X-ásinn er Þe%.
Viðmið fyrir fosfór (P) er 3-4 g/kg, svörtu brotalínurnar sýna neðri og efri mörk.
Bláu punktarnir eru öll heysýnin úr fyrri slætti. Hinir punktarnir eru keppendur í Gróffóðurkeppni Yara.

Hlutverk fosfórs (P)

  • Tekur þátt í beinabyggingu og er eitt af byggingarefnum próteina.
  • Skortur veldur minni frjósemi og mjólkurnyt minnkar. Lélegur vöxtur ungviðis er oft rakinn til skorts á fosfór.
  • Mikilvægt næringarefni fyrir orkugeymslu og orkuflutning í plöntunni.
  • Skiptir sköpum fyrir rótarmyndun.

Kalí (K)

  • Ef kalí er undir viðmiðunarmörkum er rétt að skoða sögu túnsins með tilliti til hvort túnið hafi fengið skít eða ekki.
  • Skoða áburðargjöfina og taka skítasýni.
  • Mikilvægt er að bera á þrígildan áburð með skítnum ef kalístaðan er orðin lág.
  • 74 % sýna eru innan eða yfir viðmiðunarmörk fyrir kalí (K), sem verður að teljast ljómandi gott.

Mynd 4: Y-ásinn er kalí (K), g/kg og X-ásinn er Þe%.
Viðmið fyrir kalí (K) er 18-28 g/kg svörtu brotalínurnar sýna neðri og efri mörk.
Bláu punktarnir eru öll heysýnin úr fyrri slætti. Hinir punktarnir eru keppendur í Gróffóðurkeppni Yara.

Hlutverk kalís (K)

  • Stjórnar vökvajafnvægi frumna og hefur áhrif á sýrustig blóðs.
  • Hjá plöntum er kalí lífsnauðsynlegt fyrir ljóstillífun, próteinmyndun, flutning og geymslu á kolvetnum. Skortseinkenni koma einkum fram í því að grös verða lin og mishá.
  • Sykurmagn jurta eykst með auknu aðgengi að kalí sem veldur auknu frostþoli.
  • Ofgnótt af kalí getur hindrað upptöku á magnesíum sem getur leitt til skorts í búfé og valdið graskrampa.

Brennisteinn (S)

  • Ef brennisteinn fer undir viðmiðunarmörk er vert að skoða áburðargjöfina og velja áburð sem inniheldur brennistein.
  • Flestar áburðartegundir sem Sláturfélag Suðurlands bíður upp eru ríkar af brennisteini, má þá sérstaklega nefna köfnunarefnisáburðinn Opti-NS http://www.yara.is/vara/opti-ns-27-0-0-4s/.

Mynd 5: Y-ásinn er brennisteinn (S), g/kg og X-ásinn er Þe%.
Viðmið fyrir brennistein (S) er 2-4 g/kg, svörtu brotalínurnar sýna neðri og efri mörk.
Bláu punktarnir eru öll heysýnin úr fyrri slætti. Hinir punktarnir eru keppendur í Gróffóðurkeppni Yara.

Hlutverk brennisteins (S)

  • Er byggingarefni í a.m.k. þrem mikilvægum amínósýrum, sem er grunneining próteina.
  • Skortur veldur yfirleitt próteinskorti og lélegum hárvexti.
  • Er í öllum byggingarpróteinum plantna og er nauðsynlegur góðs rótarkerfis.
  • Skortur er einkum á þurrviðrasömum héruðum.
  • Skortseinkenni er að grös verða ljósgræn og lin.
  • Ofgnótt, jarðvegur súrnar og hætta á kali eykst.

Kalsíum (Ca)

  • 80 % sýna eru undir viðmiðunarmörkum fyrir kalsíum (Ca).
  • Mikilvægt er að bændur hugi vel að kölkun túna sérstaklega ef kalsíum (Ca) er lágt í gróffóðrinu.
  • Góðir kalkgjafar sem Sláturfélag Suðurlands er að selja eru Dolomit-Mg kalk og Kalksalpeter.

Mynd 6: Y-ásinn er kalsíum (Ca), g/kg og X-ásinn er Þe%.
Viðmið fyrir kalsíum (Ca) 4-6 g/kg, svörtu brotalínurnar sýna neðri og efri mörk.
Bláu punktarnir eru öll heysýnin úr fyrri slætti. Hinir punktarnir eru keppendur í Gróffóðurkeppni Yara.

Hlutverk kalsíum (Ca)

  • Kalsíum tekur þátt í byggingu beina og tanna, er í blóði og vöðvum.
  • Skortur á kalsíum getur valdið doða.
  • Nauðsynlegt plöntum, gefur t.d. plöntuvefjum styrk.
  • Kalsíum myndar kalk sem hækkar sýrustig í jarðvegi og bætir þar með aðgang að næringarefnum.

Magnesíum (Mg)

  • 45 % sýna eru undir viðmiðunarmörkum fyrir magnesíum (Mg).
  • Dolomit Mg-kalkið inniheldur 12 % magnesíum. Mælum með að bændur noti.

Mynd 7: Y-ásinn er magnesíum (Mg), g/kg og X-ásinn er Þe%.
Viðmið fyrir magnesíum (Mg) 2-3 g/kg, svörtu brotalínurnar sýna neðri og efri mörk.
Bláu punktarnir eru öll heysýnin úr fyrri slætti. Hinir punktarnir eru keppendur í Gróffóðurkeppni Yara.

Hlutverk magnesíum (Mg)

  • Eitt af byggingarefnum beina og virkar sem efnaskiptahvati.
  • Mikilvægt byggingarefni í blaðgrænu og hefur áhrif á upptöku og nýtingu fosfórs.
  • Skortur er ekki algengur í plöntum en ofgnótt af kalí getur hamlað upptöku á magnesíum.
  • Nauðsynlegt er að fylgjast með styrkleika magnesíum í fóðri því skortur getur orsakað ýmis vandamál, svo sem graskrampa hjá kúm.

Kalsíum (Ca)/fosfór (P) hlutfallið

  • 41 % sýna er undir viðmiðunarmörkum fyrir kalsíum (Ca)/fosfór (P) hlutfallið.
  • Kalsíum (Ca) er í flestum tilfellum of lágt miðað við fosfórinn (P).

Mynd 8: Y-ásinn er kalsíum (Ca)/fosfór (P) hlutfall og X-ásinn er Þe%. Viðmið fyrir kalsíum (Ca) / fosfór (P) hlutfallið er 1-2, svörtu brotalínurnar sýna neðri og efri mörk. Bláu punktarnir eru öll heysýnin úr fyrri slætti. Hinir punktarnir eru keppendur í Gróffóðurkeppni Yara.

Hlutverk kalsíum (Ca)/fosfórs (P)

  • Mikilvægt er að skoða hlutfall milli styrkleika á kalsíum og fosfór í fóðri.
  • Bæði þessi efni hafa áhrif á uppbyggingu beina.
  • Ef styrkleikur á fosfór er mikið hærri en kalsíum getur það dregið úr upptöku á kalsíum og þar með orsakað vandamál í stoðkerfinu. Þetta getur átt sér stað þrátt fyrir að það sé nægileg magn af kalsíum í fóðri.

Snefilefni

Almennt eru snefilefnin góð í heyjum. Natríum (Na) er heldur lágt og því mikilvægt að gripirnir hafi góðan aðgang að saltsteinum.

Selen (Se)

  • Bændur hafa í vaxandi mæli valið selenbættan áburð sem hefur skilað sér í bættu heilbrigði hjá búfé.
  • 52 % sýna eru undir viðmiðunarmörkum í seleni (Se). Því er mikilvægt að velja selenbættan áburð.
  • Sláturfélag Suðurlands er að selja fimm áburðartegundir sem eru selenbættar.

Mynd 9: Y-ásinn er selen (Se), µg/kg og X-ásinn er Þe%.
Viðmið fyrir selen (Se) 250-600 µg/kg, svörtu brotalínurnar sýna neðri og efri mörk.
Bláu punktarnir eru öll heysýnin úr fyrri slætti. Hinir punktarnir eru keppendur í Gróffóðurkeppni Yara.

Hlutverk selens (Se)

  • Starfar náið með E-vítamíni en bæði þessi efni hafa áhrif á starfsemi vöðva.
  • Vöntun leiðir til óstyrkleika, stíuskjögurs, kemur helst fram í ungum lömbum.
  • Skortur getur einnig valdið vanþrifum og slappleika.
  • Ofgnótt af seleni getur valdið liðstirðnun og hárleysi, jafnvel sinnuleysi.
  • Plöntur þurfa ekki selen.

Áburðaráætlun – Nú er tíminn!

Nú er rétti tíminn til að huga að áburðaráætlun og gera plön fyrir komandi sumar. Mikilvægt er að hafa hey-, jarðvegs- og skítasýni til þess að áætlunin verði sem nákvæmust. Auk þess hvetjum við bændur til að vigta rúllurnar. Ef rúllurnar eru vigtaðar og fyrir liggja heysýni þá er m.a. hægt að:

  • Reikna út hve margar fóðureiningar fengust af hverjum ha.
  • Reikna út hve mörg kg þurrefnis fengust af hverjum ha.

Gróffóðuröflun er einn stærsti kostnaðarliðurinn í landbúnaði. Það er því gríðarleg hagræðing að fá sem mest fóður í magni og gæðum af hverjum ha.

Skráðu þig á póstlista Yara og við sendum þér hagnýtar upplýsingar