Búvörudeild SS tók rúmlega 100 heysýni nú í ár en þó mest á Suður- og Vesturlandi. Mikilvægt er að taka heysýni ár hvert til að vita innihald gróffóðursins svo hægt sé að gera markvissari fóður- og áburðaráætlanir.

Við upphaf sprettutíðar var verulega kalt og þurrt sem seinkaði fyrri slætti um 10 til 14 daga og allt upp í þrjár vikur á Suður- og Vesturlandi. Þeir bændur sem ekki náðu að taka seinni slátt um miðjan ágúst náðu honum ekki fyrr en í lok september byrjun október vegna vætutíðar. Hins vegar var mjög góð spretta eftir mitt sumar og fram á haust. Á Norður- og Austurlandi var vorið kalt en um 25. júní kom sumarið og fór ekki fyrr en fór að hausta. Það fór eitthvað minna fyrir sólinni í hinum landsfjórðungunum.

Tafla 1. Fyrri sláttur. Helstu meðaltals niðurstöður heysýna 2017-2021. Rauðu tölurnar eru undir viðmiðunarmörkum.

Ef skoðuð eru meðaltöl fyrir fyrri slátt þá er meðal orkuinnhald 0,85 FEm og heldur áfram að lækka milli ára. Próteinið er rétt yfir viðmiðunarmörkum, svipað því sem var í fyrra. Trénið er með hæsta móti sem skýrist hve seint fyrri sláttur var sleginn. Út frá þessu er mikilvægt að skoða kjarnfóðurgjöf með hliðsjón af niðurstöðum heysýna.

Ef skoðuð eru meðaltöl fyrir fyrri slátt þá er orkan 0,85 FEm sem er heldur lægri en í fyrra. Próteinið er hins vegar hærra í heyjunum þetta árið eða 145 g/kg. Mikilvægt er að skoða kjarnfóðurgjöf með hliðsjón af niðurstöðum heysýna.

 

Prótein

 • Prótein í fóðri ræðst af plöntutegund, sláttutíma og áburðargjöf.
 • Ef próteinið fer undir eða yfir viðmiðunarmörk ætti að skoða sláttutíma og köfnunarefnisáburðargjöf.
 • Styrkur próteins fellur með þroska túngrasa.
 • Ekki er gott að prótein sé mikið hærra en viðmiðunarmörk segja til um því þá fer aukin orka í niðurbrot á próteini.
 • 50 % sýna er undir viðmiðunarmörkum fyrir prótein. Köfnunarefnið hefur nýst illa vegna kulda. Trénið var með hærra móti en slegið var líka óvenju seint en þessi tvö atriði skýra hvers vegna svona mörg sýni voru undir viðmiðunarmörkum fyrir prótein.

Mynd 1: Y-ásinn er prótein, g/kg og X-ásinn er Þe%. Viðmið fyrir prótein er 140-180 g/kg, rauðu brotalínurnar sýna neðri og efri mörk. Bláu punktarnir eru heysýni úr fyrri slætti. Hinir punktarnir eru keppendur í Gróffóðurkeppni Yara.

 

Sykur

 • 78 % sýna er innan viðmiðunarmarka fyrir sykur í gróffóðri, sem verður að teljast nokkuð gott.
 • Mikilvægt er að slá eftir sólríkan dag þegar plönturnar eru ríkar af sykrum.

Mynd 2: Y-ásinn er sykur, g/kg og X-ásinn er Þe%. Viðmið fyrir sykur er 40-80 g/kg, rauðu brotalínurnar sýna neðri og efri mörk. Bláu punktarnir eru heysýni úr fyrri slætti. Hinir punktarnir eru keppendur í Gróffóðurkeppni Yara.

 

Hlutverk sykurs

 • Magn sykurs í fóðri ræðst af plöntutegund, sláttutíma, tapi sem verður við forþurrkun og við gerjun fóðurs.
 • Hátt innihald sykurs eykur lystugleika fóðurs og þar með gróffóðurát. Það hefur síðan jákvæð áhrif á vambarstarfsemina og hlutfall trénis og auðleystra kolvetna verður æskilegra.
 • Niðurbrot á sykri í vömb leiðir til hærri fituprósentu í mjólk.

 

Steinefni

Steinefnainnihald er mjög svipað milli ára. Ef meðaltöl heysýna eru skoðuð fyrir uppskeru úr fyrri slætti þá eru fosfór(P), kalsíum (Ca) og natríum (Na) rétt undir viðmiðunarmörkum. Ekki er hægt að merkja áhrif gossins í Fagradal á niðurstöður heysýna en ætla mætti að brennisteinn hefði getað hækkað en sú var ekki raunin.

 

Fosfór (P)

 • Ef fosfór er undir viðmiðunarmörkum þá er mikilvægt að skoða hlutina í samhengi, hversu mikill fosfór hefur verið borinn á og hver er kalsíumstaðan.
 • Mikilvægt er að sýrustigið sé rétt því fosfór bindst auðveldlega jarðvegi.
 • 57% sýna eru undir viðmiðunarmörkum fyrir fosfór. Mikilvægt er því að taka jarðvegssýni og skoða áburðargjöfina.

Mynd 3: Y-ásinn er fosfór (P), g/kg og X-ásinn er Þe%. Viðmið fyrir fosfór (P) er 3-4 g/kg, rauðu brotalínurnar sýna neðri og efri mörk. Bláu punktarnir eru heysýni úr fyrri slætti. Hinir punktarnir eru keppendur í Gróffóðurkeppni Yara.

Hlutverk fosfórs (P)

 • Tekur þátt í beinabyggingu og er eitt af byggingarefnum próteina.
 • Skortur veldur minni frjósemi og mjólkurnyt minnkar. Lélegur vöxtur ungviðis er oft rakinn til skorts á fosfór.
 • Mikilvægt næringarefni fyrir orkugeymslu og orkuflutning í plöntunni.
 • Skiptir sköpum fyrir rótarmyndun.

 

Kalí (K)

 • Ef kalí er undir viðmiðunarmörkum er rétt að skoða sögu túnsins með tilliti til hvort túnið hafi fengið skít eða ekki.
 • Skoða áburðargjöfina og taka skítasýni.
 • Mikilvægt er að bera á þrígildan áburð með skítnum ef kalístaðan er orðin lág.
 • 64 % sýna eru innan eða yfir viðmiðunarmörk fyrir kalí (K), því mikilvægt að fylgjast vel með kalístöðunni.

Mynd 4: Y-ásinn er kalí (K), g/kg og X-ásinn er Þe%. Viðmið fyrir kalí (K) er 18-28 g/kg, rauðu brotalínurnar sýna neðri og efri mörk. Bláu punktarnir eru heysýni úr fyrri slætti. Hinir punktarnir eru keppendur í Gróffóðurkeppni Yara.

Hlutverk kalís (K)

 • Stjórnar vökvajafnvægi frumna og hefur áhrif á sýrustig blóðs.
 • Hjá plöntum er kalí lífsnauðsynlegt fyrir ljóstillífun, próteinmyndun, flutning og geymslu á kolvetnum. Skortseinkenni koma einkum fram í því að grös verða lin og mishá.
 • Sykurmagn jurta eykst með auknu aðgengi að kalí sem veldur auknu frostþoli.
 • Ofgnótt af kalí getur hindrað upptöku á magnesíum sem getur leitt til skorts í búfé og valdið graskrampa.

 

Brennisteinn (S)

 • Ef brennisteinn fer undir viðmiðunarmörk er vert að skoða áburðargjöfina og velja áburð sem inniheldur brennistein.
 • 43% sýna er undir viðmiðunarmörkum, mikilvægt að brennistein skorti ekki því full ástæða til að velja brennisteinsbættan áburð.
 • Flestar áburðartegundir sem Sláturfélag Suðurlands bíður upp eru ríkar af brennisteini, má þá sérstaklega nefna köfnunarefnisáburðinn Opti-NS http://www.yara.is/vara/opti-ns-27-0-0-4s/

Mynd 5: Y-ásinn er brennisteinn (S), g/kg og X-ásinn er Þe%. Viðmið fyrir brennistein (S) er 2-4 g/kg, rauðu brotalínurnar sýna neðri og efri mörk. Bláu punktarnir eru heysýni úr fyrri slætti. Hinir punktarnir eru keppendur í Gróffóðurkeppni Yara.

Hlutverk brennisteins (S)

 • Er byggingarefni í a.m.k. þrem mikilvægum amínósýrum, sem er grunneining próteina.
 • Skortur veldur yfirleitt próteinskorti og lélegum hárvexti.
 • Er í öllum byggingarpróteinum plantna og er nauðsynlegur góðs rótarkerfis.
 • Skortur er einkum á þurrviðrasömum héruðum.
 • Skortseinkenni er að grös verða ljósgræn og lin.
 • Ofgnótt, jarðvegur súrnar og hætta á kali eykst.

 

Kalsíum (Ca)

 • 71 % sýna eru undir viðmiðunarmörkum fyrir kalsíum (Ca).
 • Mikilvægt er að bændur hugi vel að kölkun túna sérstaklega ef kalsíum (Ca) er lágt í gróffóðrinu.
 • Góðir kalkgjafar sem Sláturfélag Suðurlands er að selja eru Dolomit-Mg kalk og Kalksalpeter.

Mynd 6: Y-ásinn er kalsíum (Ca), g/kg og X-ásinn er Þe%. Viðmið fyrir kalsíum (Ca) er 4-6 g/kg, rauðu brotalínurnar sýna neðri og efri mörk. Bláu punktarnir eru heysýni úr fyrri slætti. Hinir punktarnir eru keppendur í Gróffóðurkeppni Yara.

Hlutverk kalsíum (Ca)

 • Kalsíum tekur þátt í byggingu beina og tanna, er í blóði og vöðvum.
 • Skortur á kalsíum getur valdið doða.
 • Nauðsynlegt plöntum, gefur t.d. plöntuvefjum styrk.
 • Kalsíum myndar kalk sem hækkar sýrustig í jarðvegi og bætir þar með aðgang að næringarefnum.

 

Magnesíum (Mg)

 • 44 % sýna eru undir viðmiðunarmörkum fyrir magnesíum (Mg).
 • Mælum með að bændur noti Dolomit Mg-kalkið sem inniheldur 12 % magnesíum.

Mynd 7: Y-ásinn er magnesíum (Mg), g/kg og X-ásinn er Þe%. Viðmið fyrir magnesíum (Mg) er 2-3 g/kg, rauðu brotalínurnar sýna neðri og efri mörk. Bláu punktarnir eru heysýni úr fyrri slætti. Hinir punktarnir eru keppendur í Gróffóðurkeppni Yara.

Hlutverk magnesíum (Mg)

 • Eitt af byggingarefnum beina og virkar sem efnaskiptahvati.
 • Mikilvægt byggingarefni í blaðgrænu og hefur áhrif á upptöku og nýtingu fosfórs.
 • Skortur er ekki algengur í plöntum en ofgnótt af kalí getur hamlað upptöku á magnesíum.
 • Nauðsynlegt er að fylgjast með styrkleika magnesíum í fóðri því skortur getur orsakað ýmis vandamál, svo sem graskrampa hjá kúm.

 

Kalsíum (Ca)/fosfór (P) hlutfallið

 • 68 % sýna er innan viðmiðunarmarka fyrir kalsíum (Ca)/fosfór (P) hlutfallið.
 • Kalsíum (Ca) er í flestum tilfellum of lágt miðað við fosfórinn (P).

Mynd 8: Y-ásinn er kalsíum (Ca)/fosfór (P) hlutfall, g/kg og X-ásinn er Þe%. Viðmið fyrir kalsíum (Ca)/fosfór (P) hlutfallið, 1-2 g/kg, rauðu brotalínurnar sýna neðri og efri mörk. Bláu punktarnir eru heysýni úr fyrri slætti. Hinir punktarnir eru keppendur í Gróffóðurkeppni Yara.

Hlutverk kalsíum (Ca)/fosfórs (P)

 • Mikilvægt er að skoða hlutfall milli styrkleika á kalsíum og fosfór í fóðri.
 • Bæði þessi efni hafa áhrif á uppbyggingu beina.
 • Ef styrkleikur á fosfór er mikið hærri en kalsíum getur það dregið úr upptöku á kalsíum og þar með orsakað vandamál í stoðkerfinu. Þetta getur átt sér stað þrátt fyrir að það sé nægileg magn af kalsíum í fóðri.

 

Snefilefni

Almennt eru snefilefnin góð í heyjum. Natríum (Na) er heldur lágt og því mikilvægt að gripirnir hafi góðan aðgang að saltsteinum.

 

Selen (Se)

 • Bændur hafa í vaxandi mæli valið selenbættan áburð sem hefur skilað sér í bættu heilbrigði hjá búfé.
 • 58% sýna eru undir viðmiðunarmörkum í seleni (Se). Því er mikilvægt að velja selenbættan áburð.
 • Sláturfélag Suðurlands er að selja fimm áburðartegundir sem eru selenbættar.

Mynd 9: Y-ásinn er selen (Se), µg/kg og X-ásinn er Þe%. Viðmið fyrir selen (Se), 250-600 µg/kg, rauðu brotalínurnar sýna neðri og efri mörk. Bláu punktarnir eru heysýni úr fyrri slætti. Hinir punktarnir eru keppendur í Gróffóðurkeppni Yara.

Hlutverk selens (Se)

 • Starfar náið með E-vítamíni en bæði þessi efni hafa áhrif á starfsemi vöðva.
 • Vöntun leiðir til óstyrkleika, stíuskjögurs, kemur helst fram í ungum lömbum.
 • Skortur getur einnig valdið vanþrifum og slappleika.
 • Ofgnótt af seleni getur valdið liðstirðnun og hárleysi, jafnvel sinnuleysi.
 • Plöntur þurfa ekki selen.

 

Áburðaráætlun – Nú er tíminn!

Nú er rétti tíminn til að huga að áburðaráætlun og gera plön fyrir komandi sumar. Mikilvægt er að hafa hey-, jarðvegs- og skítasýni til þess að áætlunin verði sem nákvæmust. Auk þess hvetjum við bændur til að vigta rúllurnar. Ef rúllurnar eru vigtaðar og fyrir liggja heysýni þá er m.a. hægt að:

 • Reikna út hve margar fóðureiningar fengust af hverjum ha.
 • Reikna út hve mörg kg þurrefnis fengust af hverjum ha.

Gróffóðuröflun er einn stærsti kostnaðarliðurinn í landbúnaði. Það er því gríðarleg hagræðing að fá sem mest fóður í magni og gæðum af hverjum ha.

 

Höfundur og vinnsla gagna: Margrét Ósk Ingjaldsdóttir.

Skráðu þig á póstlista Yara og við sendum þér hagnýtar upplýsingar