Nú í vor voru lagðir út 36 sýningarreitir á Hvolsvelli á vegum Búvörudeildar SS. Markmið reitanna er að geta sýnt gestum og gangandi áhrif mismunandi áburðarskammta á korn, hafra og grænfóður. Einnig var sáð mismunandi grastegundum og að auki voru túnreitir sem fengu vaxandi köfnunarefnisskammt með og án Dolomit Mg-kalki.

Sýrustig reitanna sem sáð var í er pH 6,25 en sýrustig túnreitanna er pH 6,15. Mikilvægt er að sýrustigið sé á bilinu pH 6-6,5 svo að upptaka næringarefna verði sem best.

Sáð var korni í 12 reiti en notuð voru yrkin Anneli 2ja raða og Smyrill 6 raða. Einnig var sáð í 6 reiti af höfrum með yrkinu Niklas. Allir reitirnir fengu 70 kg/ha af köfnunarefni en mismunandi magn af fosfór og kalí.

Grænfóðri var sáð í 6 reiti og var vetrarrepjan Hobson fyrir valinu. Allir þessir reitir fengu mismunandi áburðarskammta af N, P og K.

Sáð var grasi í 4 reiti; hávingull Preval, túnvingull Reverent, vallarfoxgras Snorri og fjölært rýgresi Birger. Þessir reitir fengu allir sama áburðarskammtinn, 600 kg/ha af NPK 15-7-12 nema Birger fékk 765 kg/ha af NPK 20-5-10 Selen.

Í ár bættust við 8 nýir reitir en þar er verið að sýna áhrif vaxandi köfnunarefnisskammta með og án Dolomit Mg-kalki á tún. Reitirnir fengu vaxandi köfnunarefnisskammta 0-70-140-210 N, allir reitirnir fengu 25 P og 60 K. Til viðbótar fengu fjórir af þessum reitum 3 tonn/ha af Dolomit Mg-kalki.

Reitirnir eru vel merktir og er gestum og gangandi velkomið að ganga um svæðið.

Skráðu þig á póstlista Yara og við sendum þér hagnýtar upplýsingar