Áburðarverð á erlendum mörkuðum tók að hækka í byrjun ársins og er nú í lok september í sögulegum hæðum. Mikil óvissa er um verðþróun fram til vors 2022. Samspil margra þátta er að valda því ójafnvægi sem nú ríkir.

Kostnaður við framleiðslu áburðar hefur margfaldast á árinu. Bæði hefur orðið gríðarleg hækkun á rafmagni og gasi en til að mynda var verð á gasi(Natural gas) í byrjun janúar um 6 USD/mnBtu en 23 USD/mnBtu í lok september. Olía hefur einnig hækkað frá áramótum úr 50 USD/ba í 70 USD/ba. Hækkun á framleiðslukostnaði hefur leitt til lokunar á verksmiðjum sem dregur enn frekar úr framleiðslu.

Eins hafa hráefni til áburðarframleiðslu hækkað gríðarlega. Til að mynda var verð á Ammonia 250 USD/tonn fob frá Svarta hafinu í byrjun árs en í september 590 USD/tonn. Verð á Urea hefur hækkað úr 320 USD/tonn í 420 USD/tonn. Kalíum(MOP Vancouver) hefur hækkað frá áramótum úr 210 USD/tonn í 390 USD/tonn. Fosfor(fob Marocko) hefur hækkað úr 700 USD/tonn í 1100 USD/tonn.

Skipafragt hefur einnig hækkað mikið síðustu mánuði. Dæmi um allt að tvöföldun á fragt á ákveðnum leiðum og erfitt að fá skip í hluta flutninga vegna framboðsskorts.

Vegna þess ójafnvægis og óvissu sem nú ríkir á áburðarmörkuðum hefur SS ekki getað hafið sölu á Yara áburði. Á þessari stundu er erfitt að segja til um hvenær áburðarsala hefst hjá SS.  Við þessar aðstæður hefur ekki verið hægt að ljúka samningum um áburðarkaup við Yara. Viðskiptasamband SS við Yara stendur traustum fótum og allt verður gert af beggja hálfu til að tryggja nægjanlegt magn af Yara áburði í vor.

Verð á tilbúnum áburði til bænda í Evrópu hefur hækkað gríðarlega milli ára. Verð á NPK 15-7-12 var í byrjun október 2020 um 260 EUR/tonn (Spánn ósekkjað) en nú 485 EUR/tonn sem gerir 86% hækkun. Köfnunarefni (CAN ósekkjað í Þýskalandi) til afhendingar í október er nú boðið á 400 EUR/tonn en var 170 EUR/tonn í byrjun október 2020 og hefur því hækkað um 135% milli ára.

Því er alveg ljóst að bændur geta ekki einir tekið á sig verðhækkanir á áburði.  Það eru því rík rök fyrir því að hið opinbera komi að því að milda það högg sem framundan er með fjárstuðningi við bændur. Fordæmi er til að mynda fyrir stuðningi við kölkun en fleira þarf að koma til.

Við þessar aðstæður skiptir einnig miklu máli að bændur grípi til þeirra aðgerða í tíma sem mögulegar eru í stöðunni. Mikilvægt er að leita leiða til að draga úr notkun á tilbúnum áburði á næsta ári vegna þeirra miklu hækkana sem nú blasa við. Við þessar aðstæður er mikilvægt að nýta allan húsdýraáburð sem bændur hafa aðgang að til að draga úr notkun á tilbúnum áburði í vor.

Niðurstöður jarðvegssýna benda til þess að víða sé þörf á að kalka en 77% jarðvegssýna sem tekin voru af starfsmönnum SS á árinu 2020 mældust með pH gildi 5,5 eða lægra og einungis 1% með pH gildi 6,0 – 6,5 sem er æskileg staða til að áburður nýtist sem best en rannsóknir benda til þess að nýting áburðarefna sé aðeins um helmingur eða lægri sé sýrustig jarðvegs með pH gildi undir 5,0.

Haustið er góður tími til að kalka en kölkun að hausti skilar sér í uppskeru að ári. Kölkun getur skilað 20 – 50% bættri nýtingu á áburði. Sala á Dolemit Mg-kalki í lausu er nú í fullum gangi en kalkið er til afgreiðslu á helstu höfnum landsins. Í boði er fagleg þjónusta, jarðvegssýnataka og túlkun á niðurstöðum.

Nánari upplýsingar:

Verðskrá : https://www.yara.is/vorur/verdskra/

Sölufulltrúar : https://www.yara.is/vorur/solufulltruar/

Kölkun – spurt og svarað : https://www.yara.is/kolkun/

Hverjir dreifa kalkinu : https://www.yara.is/dreifingaradilar/

Skráðu þig á póstlista Yara og við sendum þér hagnýtar upplýsingar